Innlent

Yfirdráttarlán hækka enn

Yfirdráttarlán hafa aukist um 2,2 milljarða síðan í febrúar. Þetta kemur fram í nýjasta vegvísi Landsbankans. Aukningin kom að mestu leyti fram í mars, en aðeins lítillega í apríl. Þegar bankarnir komu inn á íbúðalánamarkaðinn lækkuðu yfirdráttarlán nokkuð og urðu lægst í desember. "Sú hagræðing sem heimilin náðu fram með uppgreiðslu yfirdráttarlána í tengslum við endurfjármögnun fasteignalána virðist því vera orðin að engu," segir í Vegvísinum. Vextir á yfirdráttarlánum einstaklinga eru nú 18,70 prósent hjá bönkunum, nema KB þar sem þeir eru 18,20 prósent. Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, sagði mikilvægt að hafa í huga að yfirdráttarlán sveiflist mikið. Einkaneysla hafi verið í miklum vexti að undanförnu og aukin yfirdráttarlán séu hluti af þeirri þróun. Hún vonar að þetta sé tímabundið ástand og óvíst að um varanlega aukningu sé að ræða. "Þetta endurspeglar bjartsýni fólks og trú á að það geti greitt lánin upp," sagði Edda. Hún bendir á að tveir toppar hafi verið á yfirdráttarlánum síðustu misseri, annars vegar í ágúst og september og hins vegar í apríl, eða rétt um páskana. Það sé mögulegt að vegna hás gengis hafi fólk í miklum mæli notað tækifærið í fríinu og tekið yfirdráttarlán til að ferðast til útlanda. Ásta S. Helgadóttur, forstöðumaður Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna, telur aukningu yfirdráttarlána fyrst og fremst vera vísbendingu um aukna neyslu. "Bílar hafa selst mjög mikið að undanförnu og það stefnir í metár í utanlandsferðum." Bæði Edda og Ásta bentu á að yfirdráttarlánin væru þægilegur lánamöguleiki. Það þyrfti aðeins eitt símtal, sjaldnast ábyrgðarmann og þinglýsing er óþörf. Enn fremur losna menn við stimpilgjaldið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×