Innlent

75% barna í sjö stunda vistun

Leikskólabörnum á Íslandi fjölgaði aðeins um 25 frá fyrra ári sem er mun minni fjölgun en undanfarin ár. Þrjú af hverjum fjórum börnum eru sjö klukkustundir eða lengur í vistun á hverjum degi. Leikskólabörn voru 16.710 í desember í fyrra og hafði aðeins fjölgað um 25 á milli ára sem er mun minni fjölgun en undanfarin ár, en frá þessu er greint í nýrri skýrslu Hagstofunnar um leikskóla. Bergur Felixson, framkvæmdastjóri Leikskóla Reykjavíkur, segir að um sé að ræða þróun í öllum hinum vestræna heimi, en þar hafi fæðingartíðni lækkað og færri börn fæðist inn í hverja fjölskyldu. Aðspurður hvort skýringarinnar sé ekki leita í skorti á plássum á leikskólum segist Bergur telja að svo sé ekki því síðastliðin ár hafi öll sveitarfélög setið sveitt við að fjölga leikskólaplássum. Ástandið sé mjög gott miðað við árin á undan og ef skortur á leikskólaplássum væri skýringin hefði þessi þróun átt að verða miklu fyrr. Strákar eru hlutfallslega fleiri á leikskólum eða rúmlega 80 prósent á móti rúmlega 79 prósent stúlkna á aldrinum eins til fimm ára. Á milli áranna 2003 og 2004 fækkaði leikskólum á Íslandi um sex prósent og voru 261 í desember í fyrra. Rúmlega fjórðungur eins árs barna var í leikskóla í desember og um 90 prósent tveggja ára barna og hefur viðverutími barna á leikskólum aukist en nú dvelja þrjú af hverjum fjórum börnum í sjö stundir eða lengur á leikskóla á hverjum degi. Tæplega 10 prósent leikskólabarna voru í einkareknum grunnskólum sem eru 28 talsins á Íslandi. Á sama tíma og leikskólabörnum fjölgaði um 25 á milli áranna 2003 og 2004 fjölgaði starfsmönnum leikskóla í fullu starfi um fjóra og stöðugildum fjölgaði um 50, en í desember störfuðu tæplega 4.700 starfsmenn í leikskólum á Íslandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×