Innlent

Óánægja með drasl

Íbúar við Miðtún í Reykjavík eru óánægðir með að Íslenskir aðalverktakar geymi spýtnahrúgu, steypujárn og annað drasl við skúr sinn við Sóltún, því að eldri krakkarnir draga draslið yfir á leiksvæði þarna í grennd. Reykjavíkurborg hefur þegar komið einu sinni til að laga til á svæðinu en það fór strax aftur í sama horf. Íbúarnir eru nú orðnir langeygir eftir úrbótum og vonast til þess að gripið verði til ráðstafana og helst að ÍAV girði draslið af. Ágúst Jónsson, skrifstofustjóri á umhverfis- og tæknisviði borgarinnar, segir að borgin hafi fyrir einu ári keypt tvö hús ásamt tilheyrandi lóðaréttindum við Höfðatún. Kaupverðið hafi verið greitt með byggingarrétti á Sóltúnsreit við Ármannsvöllinn. "Ármann er þar ennþá með sitt íþróttahús og ekki farinn þannig að það er ekki hægt að hleypa ÍAV af stað með byggingar. Ég veit ekki hvort þeir eru kannski komnir þangað með tól og tæki til að vera í startholunum," segir Ágúst. Ekki náðist í forsvarsmann ÍAV í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×