Innlent

Minni lyfjanotkun bætir heilsufær

Langtímarannsókn Vilhjálms Ara Arasonar læknis og samstarfsmanna hans leiðir í ljós að vaxandi sýklalyfjanotkun gegn eyrnabólgum barna hefur leitt til aukins lyfjaónæmis og á endanum verri eyrnaheilsu barnanna. Rannsóknin er liður í doktorsverkefni Vilhjálms og hefur staðið frá árinu 1991. Fram kemur að sýklalyfjanotkunin er meiri hérlendis en annars staðar á Norðurlöndum og því hefur þótt ástæða til að skoða afleiðingar þess sérstaklega. "Miðeyrnabólgur barna eru langalgengasti einstaki heilsuvandinn sem herjar á börn. Hafi minnsti grunur vaknað um bólgu í eyrum hefur hún verið meðhöndluð með sýklalyfjum. Þetta hefur gjörbreyst í seinni tíð enda ástæða til," segir Vilhjálmur Ari. Rannsókn hans leiddi meðal annars í ljós að sums staðar á landinu voru börn meðhöndluð við eyrnabólgum þrisvar á ári að jafnaði og fengu þau margfalt meira af sýklalyfjum en fullorðið fólk. "Þetta leiddi til vaxandi sýklaónæmis meðal barna. Full ástæða er til þess að vara við þessu lyfjaónæmi. Enda hefur Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna (WHO) skilgreint ónæmisþróunina sem meiriháttar ógn við heilsu manna í framtíðinni vegna þess að það eykur líkurnar á að ekki finnist nothæf lyf við erfiðum bakteríusýkingum," segir Vilhjálmur Ari. Rannsókn hans nær til Hafnarfjarðar, Vestmannaeyja, Bolungarvíkur og Egilsstaða. "Egilsstaðir skáru sig úr. Þar minnkaði sýklalyfjanotkunin um sextíu til sjötíu af hundraði. Samfara þessu batnaði eyrnaheilsa barna á svæði heilsugæslustöðvarinnar. Börnum sem fengu rör í hljóðhimnur fækkaði á sama tíma og þeim fjölgaði í Vestmannaeyjum, þar sem sýklalyfjanotkunin var meiri."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×