Innlent

Efasemdir um lögmæti Íraksstríðs

Breska dagblaðið Mail on Sunday hélt því fram í gær að Goldsmith lávarður, sem er dómsmálaráðherra Bretlands, hefði komist að þeirri niðurstöðu að stríð gegn Írak myndi brjóta í bága við alþjóðalög. Blaðið sagðist hafa undir höndum eintak af þrettán blaðsíðna ráðleggingum Goldsmiths sem sendar voru til Tony Blair forsætisráðherra, þar sem Goldsmith nefndi sex rök fyrir því að stríðið gæti verið ólöglegt. Meðal annars hefði Goldsmith sagt að Sameinuðu þjóðirnar ættu að taka ákvörðun um stríð en ekki bandarísk eða bresk stjórnvöld. Goldsmith andmælir þessu sjálfur og segist hafa sagt við Blair að stríðið væri fullkomlega löglegt. Breskir fjölmiðlar hafa þó verið með vangaveltur um að Goldsmith hafi skipt um skoðun stuttu áður en stríðið hófst, hugsanlega vegna þrýstings frá valdamiklum stjórnmálamönnum. Breska stjórnin hefur hvað eftir annað neitað því að birta ráðleggingar Goldsmiths óstyttar. Allar efasemdir um lögmæti Írakstríðsins gætu komið sér illa fyrir Blair og Verkamannaflokkinn, sem nú sækist eftir að fá meirihluta í þriðja sinn í þingkosningum sem fram fara 5. maí næstkomandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×