Innlent

Skiptar skoðanir um ágæti varnanna

Gerð viðamikilla snjóflóðavarna fyrir ofan Holtahverfi í Skutulsfirði er í undirbúningi. Framkvæmdin mun kosta um hálfan milljarð króna en skiptar skoðanir eru meðal Ísfirðinga um ágæti framkvæmdanna. Holtahverfi er fyrir neðan fjallið Kubba í botni Skutulsfjarðar. Samkvæmt hættumati sem staðfest var fyrir tæpum tveimur árum eru mörg hús sem næst standa fjallinu á hættusvæði. Hugmyndin er að reisa varnargarð fyrir ofan efstu hús í hverfinu og hins vegar upptökustoðvirki sem á að reisa ofar í híðum fjallsins, þar sem hætta er á að snjór safnist saman. Þetta eru gríðarmiklar framkvæmdir en gert er ráð fyrir að ofanflóðasjóður greiði 90% kostnaðar og Ísafjarðarbær afganginn, um fimmtíu milljónir. Ísfirðingar eru ekki allir jafn hrifnir, telja garðinn munu eyðileggja ásjónu hverfisins og sumir hafa jafnvel dregið forsendur hættumatsins í efa. Halldór Halldórsso bæjarstjóri segir alltaf vera gagnrýni á allar gerðir snjóflóðavarna. Þær séu hins vegar nauðsynlegar til að hægt sé að búa í sátt og samlyndi við náttúruna. Halldór segir engar athugasemdir hafa verið gerðar þegar hættumatið var samþykkt og minnir á að þar sem svona framkvæmdum sé lokið, eins og á Siglufirði, Flateyri og Seljalandshlíð, sé almenn ánægja með hana. Halldór segist ekki vita hvenær hægt verði að hefjast handa en segir að samkvæmt lögum beri sveitarfélögum að ljúka öllum svona framkvæmdum ekki síðar en árið 2010.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×