Innlent

Undarlegt að kjósa þurfi á ný

Davíð Pétursson, oddviti Skorradalshrepps, segir hreppsstjórn ætla að skoða hvort það standist að kjósa þurfi aftur um sameiningu í hreppnum. "Mér finnst undarlegt að þeir sem höfnuðu þurfi að kjósa aftur en þeir sem sögðu já fái ekki tækifæri til að endurskoða hug sinn. Þetta er klárleg mismunun." Hann segist ekki hafa trú á að niðurstöðurnar breytist þó að kosið verði á ný og bendir á góða kjörsókn og afgerandi úrslit máli sínu til stuðnings. Um ástæður þess að þorri íbúanna hafnaði sameiningu segir Davíð: "Ég hugsa að menn hafi talið sig öruggari með eigin sveitarstjórn heldur en að vera jaðarbyggð í stóru sveitarfélagi." Og spurður eftir hverju sé að slægjast í Skorradalshreppi segir hann: "Við höfum staðið vel fjárhagslega, hér er lágmarksútsvar, fasteignagjöld með því lægsta sem gerist og þjónustugjöld frekar í lægri kantinum en hitt." Þetta er í þriðja sinn sem íbúar Skorradalshrepps hafna sameiningu við önnur sveitarfélög og veltir Davíð fyrir sér hve mikið þol menn hafa til að koma hreppnum í sambúð. 64 íbúar eru nú í Skorradalshreppi en séu innan við 50 búsettir í sveitarfélagi í þrjú ár samfleytt geta stjórnvöld ákveðið að það skuli sameina öðru sveitarfélagi. Fyrir nokkrum árum voru fluttar fréttir af því að fólk búsett á höfuðborgarsvæðinu hefði skrásett sig í Skorradalshrepp til þess eins að lyfta íbúatölunni upp fyrir 50. Davíð vísar slíku á bug. "Menn bjuggu til ýmsar sögur til að koma höggi á okkur. Hér voru ekki aðrir skráðir en hér áttu að vera. Hins vegar var gert í því að fækka íbúum, menn skráðu sig úr sveitarfélaginu þó að þeir byggju hér til að hægt væri að sameina án kosninga."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×