Innlent

Fimm mínútum frá sigri

"Tómas gat ekki klárað lítinn skrúfbút á föstudeginum og fyrir vikið voru dregin af honum fimmtán stig," segir Skarphéðinn Skarphéðinsson, formaður Félags pípulagningameistara, um frammistöðu Tómasar Helgasonar á Norðurlandamótinu í pípulögnum sem lauk í Perlunni á laugardag. Keppendur höfðu ákveðinn tíma til að ljúka hverju verkefni fyrir sig en Tómas þraut tíminn. Hann þurfti ekki nema fimm mínútur til að ljúka verkefninu en þær fimm mínútur reyndust honum dýrar. "Það má segja að hann hafi verið fimm mínútum frá sigri því hann hefði komið sterkur inn ef honum hefði tekist að klára þetta," segir Skarphéðinn. Mótið tókst vel í alla staði og fjöldi fólks lagði leið sína í Perluna til að fylgjast með keppendum. Áhorfendur fengu mikið fyrir sinn snúð enda spennan talsverð og handtökin fyrsta flokks. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra voru bæði við setningu mótsins á fimmtudag og Ólafur og Rannveig Guðmundsdóttir, formaður Norðurlandaráðs, snæddu hátíðarkvöldverð með keppendum og aðstandendum mótsins í Perlunni á laugardagskvöld. Skarphéðinn segir að forsetinn hafi sýnt mótinu mikinn áhuga og í ljós hafi komið að hann á ekki langt að sækja áhugann á pípulögnum. "Hann hafði mjög gaman af þessu og það kom í ljós þegar hann fór að grafa aftur í sína fortíð að afi hans hafði unnið við pípulagnir í Dýrafirði á sínum tíma. Hann hefur því mikinn áhuga á pípulögnum."
Tómas Helgason var fimm mínútum frá sigri.MYND/Páll



Fleiri fréttir

Sjá meira


×