Innlent

Upp á kant við samgönguráðherra

Samtök ferðaþjónustunnar eru komin upp á kant við samgönguráðherra vegna ákvæðis í frumvarpi um skipan ferðamála sem þau telja fela í sér miðstýringu ráðherra á markaðsstarfi. Samtökin vilja að markaðs- og kynningarmál verði færð frá Ferðamálaráði og til Útflutningsráðs, sem heyrir undir annan ráðherra. Í fumvarpi ráðherra segir að markaðs- og kynningarmál í ferðaþjónustu eigi að vera í samræmi við ákvörðun ráðherra hverju sinni. Á aðalfundi samtaka ferðaþjónustunnar í byrjun apríl var samþykkt tillaga um að fela stjórninni að hefja viðræður við Útflutningsráðs Íslands um markaðs og kynningarmál. Jón Karl Ólafsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir frumvarp ráðherra vera gott að mestu leyti og að eina ágreiningsatriðið snúi að markaðs- og kynningarmálum. Aðspurður hvernig hann vilji að farið sé með þau mál segir Jón að þetta eigi fyrst og fremst að vera í þágu alla hagsmunaaðila. Vilji ferðaþjónustunnar lá fyrir áður en frumvarpið var lagt fram en ekki var tekið tillit til beiðninnar við gerð frumvarpsins. En geta Samtök ferðaþjónustunnar ráðið einhverju um hvernig málunum verður háttað? Verða þau ekki einungis að vona að rödd þeirra heyrist innan ráðuneytisins? „Í sjálfu sér er það þannig,“ segir Jón. „Við sjáum ekkert annað en að við vinnum þetta saman því hagsmunirnir eru svo miklir í þessu,“ segir Jón. Jón segir að besta lendingin í þessu máli að mati samtakanna sé ef menn myndu endurskoða kaflann um markaðsverðið. Ef það gerist ekki verði fundin leið. „Það er margt gott í þessu frumvarpi. Þetta verður ekki ágreiningsmál sem mun slíta okkar samstarf við ráðherra. Það er alveg á hreinu,“ segir Jón.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×