Innlent

Björgólfur formaður Landverndar

Aðalfundur Landverndar, sem haldinn var á í gær, valdi Björgólf Thorsteinsson sem formann samtakanna til næstu tveggja ára. Björgólfur tekur við af Ólöfu Guðnýju Valdimarsdóttur arkitekt sem undanfarin fjögur ár hefur gegnt starfinu með farsælum hætti. Björgólfur er rekstarhagfræðingur að mennt og starfaði um árabil í fjárfestingabönkum í London og síðar í Reykjavík. Hann starfar nú sem sjálfstæður ráðgjafi. Hann var kjörinn í stjórn Landverndar á aðalfundi fyrir ári síðan og var nú einróma valinn sem formaður samtakanna. Í ræðu sem hann flutti við lok fundarins sagðist Björgólfur vilja leggja áherslu á verndun hálendisins, fræðslu og umræðu um umhverfismál og umfjöllun um erfðabreyttar lífverur og hugsanleg skaðleg áhrif þeirra á umhverfið. Stjórn Landverndar er skipuð tíu einstaklingum og voru fimm þeirra í kjöri á fundinum. Heiðrún Guðmundsdóttir umhverfisfræðingur var endurkjörin í stjórn. Ný í stjórn voru kjörin þau Davíð Aðalsteinsson, bóndi og fyrrverandi alþingismaður, Lilja Pálmadóttir, Óskar Helgi Guðjónsson, framkvæmdastjóri Ultima Thule, og Þórunn Pétursdóttir, landgræðslufulltrúi á Vesturlandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×