Innlent

Uppbygging í tíu ár til viðbótar

"Flóðbylgjan, þar sem hún var hörðust, var 24 metra há og skall á strönd Súmötru með 50 kílómetra hraða. Til að sjá þetta betur fyrir okkur getum við reynt að ímynda okkur 6 hæða fjölbýlishús koma á móti okkur með hraða bíls á góðu skriði," sagði Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, við upphaf fundar í Reykjavíkurakademíunni í gær. Þar var farið yfir hjálparstarf Rauða krossins á hamfarasvæðum flóðbylgjunnar eftir jarðskjálftann mikla í Suðaustur-Asíu á annan í jólum. Sigrún segir ráð fyrir því gert að Rauði krossinn komi að uppbyggingarstarfi á hamfarasvæðunum næstu tíu árin, en síðustu vikur hafi Rauði krossinn og aðrar hjálparstofnanir skipulagt starfið til næstu ára. "Auðvelt er að gleyma umfanginu. Að minnsta kosti 174.729 manns létu lífið í flóðunum, 1,6 milljónir manna misstu heimili sín og milljónir manna til viðbótar urðu fyrir skakkaföllum af einhverju tagi," sagði hún og bætti við að þótt Rauði kross Íslands hefði ekki yfir miklum fjármunum að ráða, hefði framlag með mannauði sannarlega skilað sér í hjálparstarfinu og sendifulltrúar héðan unnið ómetanlegt starf og getið sér gott orð fyrir. Á næstu dögum fara utan fimm sendifulltrúar Rauða kross Íslands til viðbótar við þá fimm sem áður hafa starfað á hamfarasvæðunum, en gert er ráð fyrir að á næstu árum verði ávallt einn til tveir sendifulltrúar héðan við uppbyggingarstörf á svæðinu. Á fundinum lýstu Hildur Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur og Hólmfríður Garðarsdóttir ljósmóðir reynslu sinni af störfum sem sendifulltrúar Rauða krossins í Banda Aceh í Indónesíu. Þá greindi Birna Halldórsdóttir frá því hvernig staðið var að dreifingu hjálpargagna á sömu slóðum og Sigríður Björk Þormar, hjúkrunarfræðingur og heilsusálfræðingur, fjallaði um hvernig Rauða krossi Indónesíu var hjálpað að byggja upp sálrænan stuðning bæði við fórnarlömb flóðanna og ekki síður starfsfólk sem á hamarasvæðunum starfaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×