Innlent

Ærnar í sónar

Vorið er komið og fyrstu lömbin farin að líta dagsins ljós. Það er þó fátt sem kemur bændunum að Heiðarbæ í Þingvallasveit á óvart í þeim efnum, enda fara allar ærnar í sónar áður en þær bera. Það eru 515 ær á Heiðarbæ og því meira en nóg að gera þegar sauðburður hefst. Allt er þó kirfilega skráð og ærnar merktar eftir því hvort þær eru ein-, tví- eða þrílembdar. Fóstrin eru talin þegar þær fara í sónarskoðun. Það eru þó alltaf einhverjar sem kunna að fara í kringum kerfið. Tvær komu ekki af fjalli fyrr en í janúar og voru þá fengnar, svo það eru komin þrjú lömb. Sem krökkunum á bænum finnst ekki verra. Þau segjast stundum vaka um nætur að hjálpa til við sauðburðinn. Ólöf Björg Einarsdóttir bóndi segir vorið eðlilega vera annasamasta tíma ársins, því þótt allt snúist um sauðburðinn og fjölskyldan dveljist meira og minna í fjárhúsunum meðan á honum stendur, þá þurfi líka að plægja og sá og undirbúa úti fyrir. Hún segir því mjög gott ef hægt væri að sleppa öllum svefni. Í fjárhúsunum eru útbúnar sjötíu einkastíur því hver kind fær sérpláss með sínum lömbum fyrstu dagana eftir burð. Þetta er sem sagt orðið næstum eins og spítali - sónarskoðun og einkastofur. Það væsir greinilega ekki um Heiðabæjarrollurnar. Og ekki spillir útsýnið yfir Þingvallavatnið. Eins og Björg segir: „Við þurfum ekki að kaupa Kjarval - hann er hérna.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×