Innlent

Lögðu hald á 200 kíló af matvælum

Tollayfirvöld á Seyðisfirði lögðu á þriðjudaginn hald á um tvö hundruð kíló af matvöru sem fundust í farangri nokkurra farþega sem komu til landsins með Norrænu. Allt árið í fyrra var lagt hald á um 1.700 kíló á matvöru og því var magnið sem nú var tekið af farþegunum óvenjumikið en aðeins 51 farþegi kom með ferjunni. Jóhann Freyr Aðalsteinsson, tollvörður á Seyðisfirði, segir að nær öll málin séu afgreidd með sektargreiðslu á staðnum. "Að jafnaði er ekki nema eitt til tvö tilfelli á ári þar sem viðkomandi fellst ekki á að ganga undir sátt. Lögreglan rannsakar þau mál og í kjölfarið er gefin út ákæra ef ástæða þykir til," segir Jóhann. Algengast er að farþegar með Norrænu reyni að smygla matvöru, áfengi og sígarettum til landsins en í fyrra komu auk þess upp átta smávægileg fíkniefnamál.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×