Innlent

Hækkað um þrettán milljónir

"Þetta er fyrsta eignin sem ég man eftir að sé auglýst mikið dýrari svona skömmu eftir að við seljum hana," segir Óskar Ásgeirsson, hjá Ríkiskaupum. Rúmur mánuður er síðan stofnunin seldi fasteignina að Kleifarvegi 15 hæstbjóðanda á 55 milljónir króna en sama eign er nú til sölu óbreytt á almennum markaði á 68 milljónir króna. Fasteignin sem um ræðir er veglegt 212 fm. einbýlishús ásamt bílskúr á eftirsóknarverðum stað í bænum. Þarna rak Landspítali-Háskólasjúkrahús um langa hríð meðferðar- og sambýli fyrir geðsjúka en því var hætt fyrir allnokkru og auglýsti Ríkiskaup eftir tilboðum í eignina fyrir tveimur mánuðum síðan. Hæsta tilboð hljóðaði upp á 55 milljónir króna og var því tekið. Margir hafa sýnt eigninni áhuga en ekkert formlegt kauptilboð hafði borist eigendum þess, fasteignafélaginu Fosseignir, í gær. Arngeir Lúðvíksson, framkvæmdastjóri félagsins, segist þess fullviss að eignin fari á ásettu verði enda um stóra eign að ræða á einum besta stað bæjarins. "Ástæðan fyrir þessari miklu hækkun er sú að við teljum okkur hafa gert afar góð kaup þegar við keyptum af ríkinu enda sýna fjölmargar fyrirspurnir að uppsett verð er ekki fjarri lagi."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×