Innlent

Brýnt að ganga ekki lengra

Persónuvernd telur mikilvægt að ekki verði gengið lengra en brýna nauðsyn beri til þegar um er að ræða jafn almenna og umfangsmikla skráningu á persónuupplýsingum og gert er ráð fyrir í nýju frumvarpi um breytingu á lögum um fjarskipti. Björn Geirsson, lögfræðingur hjá Persónuvernd, segir að í umsögn stofnunarinnar komi fram að Persónuvernd telji að varðveislutími gagna um fjarskiptaumferð samrýmist ekki meðalhófssjónarmiðum. Gert sé ráð fyrir árs varðveislutíma en Persónuvernd telji sex mánuði nægja eins og er víðast annars staðar. Það að fjarskiptafyrirtækjum verði gert skylt að halda skrá yfir kaupendur símakorta telur Persónuvernd koma í veg fyrir síðustu möguleika almennings á því að hringja með leynd, til dæmis í fjölmiðla. Þá telur Persónuvernd ákvæði um að fjarskiptafyrirtækjum verði skylt að veita lögreglu upplýsingar um eiganda eða notanda símanúmers eða vistfangs án dómsúrskurðar orka tvímælis, því þá verði auðveldara að fylgjast með einkalífi hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×