Innlent

Skyndihjálparþekking skipti sköpum

Kona, sem með snarræði bjargaði þriggja ára stúlku frá drukknun á Snæfellsnesi í gær, segir að þekking sín á skyndihjálp hafi tvímælalaust skipt sköpum um björgunina. Þrjár konur voru ásamt nokkrum börnum sínum við skeljatínslu í Kolgrafarfirði þegar stúlkan og þriggja ára drengur tóku sig skyndilega út úr hópnum og féllu fram af sjávarkambi og ofan í sjó. Aðeins var byrjað að falla frá þannig að djúpt var við kambinn og straumur nokkur. Stúlkan féll fram yfir sig og flaut á maganum en drengurinn á bakinu. Konurnar hlupu allar út í sjó og náðu strax drengnum, sem þá hafði sopið sjó og kastaði upp. Ein kvennanna hélt á eftir stúlkunni og var komin á nokkurt dýpi þegar hún náði loks til hennar. Var litla telpan þá meðvitundarlaus. Hún óð með hana í land og hóf þegar lífgunaraðgerðir sem báru þann árangur að stúlkan komst brátt til meðvitundar á ný. Læknir kom á vettvang og var ákveðið að flytja börnin í sjúkrabíl og leggja þau inn á Barnaspítala Hringsins til aðhlynningar og rannsóknar. Þau dvöldu þar í nótt en verða bæði útskrifuð í dag. Að sögn lögreglunnar vann konan björgunarafrek og sýndi mikið áræði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×