Innlent

Þjóðin fær ekki að kaupa strax

Forsætisráðherra segir að skýrsla Morgan Stanley um söluferli Símans verði birt fljótlega. Ákveðnar trúnaðarupplýsingar sé þó ekki hægt að birta á þessu stigi málsins. Hins vegar verði almenningi ekki boðið að kaupa strax hlutabréf í Símanum, enda sé ekki hægt að breyta útboðinu í miðju ferli. Það var Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingar, sem spurðist fyrir um söluna á Símanum á Alþingi í dag. Hún spurði hvort til greina kæmi, í ljósi þess áhuga sem almenningur hefði sýnt á kaupum í hlutabréfum fyrirtækisins, að breyta skilmálum fyrir söluna svo almenningur eigi strax kost á að kaupa hlutabréf. Forsætisráðherra svaraði því til að almenningi hefði þegar verið boðið að kaupa í Símanum einu sinni, haustið 2001, og þá hefði áhuginn verið takmarkaður. Þá skráðu 2588 aðilar sig fyrir um 5% hlut. Nú væri líka gert ráð fyrir því að hópur einstaklinga gæti sameinast um kaup í fyrirtækinu og almenningur gæti þannig komið að kaupunum. Hins vegar væri útilokað að breyta söluferlinu í miðjum klíðum. Jóhanna Sigurðardóttir spurði einnig um hvers vegna skýrsla Morgan Stanley um söluferli Símans lægi ekki uppi á borðinu. Forsætisráðherra vonast til að skýrslan verði gerð opinber mjög fljótlega. Ákveðnar trúnaðarupplýsingar sé þó ekki hægt að birta á þessu stigi málsins en annars sé málið í höndum einkavæðingarnefndar. 


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×