Innlent

Ekki samstíga um mótmæli

Ekki náðist samstaða milli meirihluta og minnihluta borgarstjórnar um sameiginlega yfirlýsingu til Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra, þar sem átti að mótmæla rýrum hlut Reykjavíkurborgar í samgönguáætlun ríksins. Þetta kom fram í máli Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur á fundi borgarstjórnar í gær. Fulltrúar R-listans gagnrýndu að uppbygging á Mýrargötu sé ekki að finna á samgönguáætlun og að ríkið vilji einungis greiða fyrir ódýrustu mögulega uppbyggingu á svæðinu, auk þess sem ríkið vilji einungis greiða fyrir ódýrustu leið Sundabrautar. Þetta sé óásættanlegt og benti Helgi Hjörvar meðal annars á að þetta væri eins og að benda á mögulegan fjallveg um Héðinsfjörð og krefja Siglfirðinga um að greiða mismuninn, vilji þeir göng. Sjálfstæðismenn og Ólafur F. Magnússon tóku undir að meira fé mætti koma til samgönguframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu, en sögðu R-listann bera ábyrgð á töfum á úrbótum í samgöngumálum. Meðal annast væri ekki gerð ráð fyrir mislægum gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar á samgönguáætlun, þar sem R-listinn hefði tvívegis tekið slík gatnamót af dagskrá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×