Innlent

Benedikt fylgi stefnu Jóhannesar

Kaþólikkar á Íslandi fögnuðu því innilega að vera búnir að fá nýjan páfa. Prestar þeirra búast ekki við að nýi páfinn muni víkja mikið frá stefnu Jóhannesar Páls. Um leið og kirkjuklukkunum var hringt í Róm var kirkjuklukkunum í Landakotskirkju hringt. Svo var þögn á eftir, ólíkt því sem var á Péturstorginu. En á meðan fréttastofa Stöðvar 2 staldraði við við kirkjuna tíndust kaþólikkar til hennar en þeir höfðu heyrt í kirkjuklukkunum og hlýtt kallinu. Margir voru útlendingar sem glöddust yfir því að heyra að búið væri að velja páfa þótt þeir vissu ekki hver hann væri. Hlutirnir gerðust hratt eftir að hvíti reykurinn hafði stigið upp úr strompi Sixíinsku kapellunnar. Prestar kaþólsku kirkjunnar á Íslandi vissu nú hver páfi þeirra var og þeir glöddust innilega. Séra Jakob Rolland, prestur kaþólikka, sagði mikla gleði fylgja því að upplifa páfakjör. Við síðasta páfakjör hefði hann verið ungur prestsnemi en þar sem langt væri síðan það var hefði hann verið búinn að gleyma hvernig tilfinningin var. Það hafi hins vegar mikil stemmning og gleði að vera með og sjá nýjan páfa birtast í sjónvarpinu. Ratzinger er sagður íhaldssamur og aðspurður hvort hann ætti von á miklum breytingum í tíð hans sagði séra Jakob að eflaust hefði hann einhverjar hugmyndir um framtíð kirkjunnar og myndi koma þeim í framkvæmd. Greinilegt væri líka að hann myndi fylgja stefnu Jóhannesar Páls annars.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×