Innlent

Bessastaðabóndinn í stjórn

Guðný Helga Björnsdóttir, bóndi að Bessastöðum í Vestur-Húnavatnssýslu var kjörin í stjórn Landssambands kúabænda á aðalfundi sambandsins á dögunum. Er hún önnur konan sem sest í stjórn kúabænda en karlar hafa stýrt stéttinni frá ómuna tíð. Kristín Linda Jónsdóttir, bóndi að Miðhvammi í Suður-Þingeyjarsýslu, var fyrst kvenna kjörin í stjórnina og var það árið 1999. Hún gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu. "Við erum með þrjátíu kýr," segir Guðný Helga sem hlakkar til að takast á við félagsmálin innan Landssambandsins. Hún hefur rekið búið að Bessastöðum í áratug en áður voru foreldrar hennar bændur á bænum. "Ég fór suður í Verslunarskólann og svo í nám á Hvanneyri en ákvað svo að helga mig búskap frekar en að læra enn meira," segir Guðný Helga en hún býr ásamt eiginmanni og þremur börnum að Bessastöðum. Henni líður mjög vel í sveitinni og sinnir þar hestamennsku í bland við bústörfin, auk þess að sitja í sveitarstjórn. Hún segist ekki vera komin í stjórn Landssambands kúabænda til að breyta einhverju, það hafi einfaldlega vantað manneskju í stjórnina og hún ekki skorast undan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×