Innlent

Standa við Biblíubreytingarnar

Einar Sigurbjörnsson prófessor, sem situr í þýðingarnefnd Hins íslenska biblíufélags, segir nefndina standa við sínar breytingatillögur og að hann hefði jafnvel viljað ganga lengra. Gunnar Þorsteinsson, forstöðumaður Krossins, er afar óánægður með tillögur að breytingum í þýðingu Biblíunnar og hefur sakað Hið íslenska biblíufélag um guðlast og falsaðar þýðingar. Hann er ekki síst óánægður með að orðið kynvillingur hafi verið tekið út og „þeir sem leita á drengi“ sett í staðinn. Einar segir breytinguna ná því vel sem standi í textanum. Hann kveðst jafnvel vilja ganga lengra og setja orðið „barnaníðingar“ í nýju þýðinguna. Einar segir eðlilegt að endurskoða þýðingu Biblíunnar reglulega. Hann segir ákaflega margt benda til þess að Páll, sem notar orðið „kynvillingur“ í eldri þýðingunni, sé að tala um ákveðna breytni að hálfu karlmanna sem notfærðu sér drengi og sé að vara við henni. „Það er sá skilningur sem við leggjum í þetta og það styðst alveg við góð og gild fræðileg rök,“ segir Einar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×