Innlent

Huga þarf að heimildum í lögum

Sigrún Jóhannesdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir vissara að hafa vaðið fyrir neðan sig í fyrirætlunum um að koma upp "svörtum lista" yfir flugdólga. Almar Örn Hilmarsson, framkvæmdastjóri Iceland Express, viðraði hugmyndina í kjölfar þess að sex farþegar létu dólgslega í flugi til Kaupmannahafnar um helgina. "Ætli sér einhver að koma sér upp slíkum lista þarf hann að ganga úr skugga um að heimild sé til þess í lögum. Skilgreina þarf í hverju felst að vera flugdólgur og ákveða hvernig nota á upplýsingarnar. Síðan þarf að huga að því hvernig notkunin passar við heimildarákvæði laga um meðferð persónuupplýsinga," segir hún og bendir á að í gildandi lögum sé gert ráð fyrir vanskilaskrám og um þær skýrar reglur. "Það eru hins vegar engar sérreglur til um dólgaskrár." Hún segir ýmsa hafa haldið úti svörtum listum, til dæmis myndbandaleigur og fleiri. "En þar er alltaf verið að tala um upplýsingar af fjárhagslegum toga." Sigrún segir þó ekkert koma í veg fyrir að flugfélög komi sér upp svörtum lista yfir flugdólga. "En ef einhver kvartaði yfir veru sinni á slíkri skrá og við kæmumst að því að heimildir skorti. þá höfum við valdheimildir til að grípa inn í."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×