Innlent

Íbúarnir komast ekki leiðar sinnar

Enn syrtir í álinn hjá íbúum svonefnds Gestshúss í vesturbæ Hafnarfjarðar en það hefur stórskemmst vegna holræsaframkvæmda sem bærinn hefur staðið fyrir í götunni að undanförnu. Í síðasta mánuði mynduðust sprungur í veggjum hússins og í fyrrinótt hrundi skurðarkantur við það. Komast heimilismenn ekki lengur inn og út með góðu móti. Örn Ægir Óskarsson, eiganda Gestshúss, var illa brugðið þegar kanturinn hrundi. "Þetta var eins og versti jarðskjálfti, húsið nötraði. Ég hef ekkert sofið síðan klukkan fjögur í nótt. Ég fékk lögregluna til að taka skýrslu í morgun því það verður að laga aðgengið að húsinu, ég varð að klifra upp klöppina til að komast inn." Örn segir ráðamenn í bænum sýna málinu lítinn áhuga og því útilokar hann ekki að hann muni leita réttar síns hjá dómstólum. Engu að síður er Örn borubrattur og ætlar að búa áfram í húsinu. " Maður verður að reyna að þrauka, maður er harður Gaflari. Fæddur og uppalinn í Firðinum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×