Innlent

Bæði hvatt til sparnaðar og eyðslu

Á sama tíma og Landsbankinn ýtir undir aukinn sparnað landsmanna hvetur hann þá til að eyða meiru og jafnvel taka lán til að fara í ferðalög og kaupa sumarhús. Framkvæmdastjóri markaðssviðs bankans viðurkennir að ef til vill sé of langt gengið að hvetja menn til að taka ferðalán. Auglýsing Landsbankans þar sem landsmenn eru hvattir til að eyða í sparnað er áberandi í blöðum, á skiltum og á strætisvögnum þessa dagana. Þar er verið að auglýsa sparibréf bankans og er aðallega verið að hvetja þá einstaklinga, sem keyptu spariskírteini ríkissjóðs á sínum tíma, til að halda áfram að spara við innlausn bréfanna. En hvernig getur Landsbankinn ýtt undir sparnað landsmanna á sama tíma og hann ýtir undir eyðslu með því að bjóða lán af ýmsu tagi, eins og ferðalán og húsnæðislán? Hermann Jónasson, framkvæmdastjóri markaðssviðs Landsbankans, segir að einfaldast sé að svara því þannig að starfsmenn bankans finni fyrir því þjóðin sé tilbúin að fara að huga að sparnaði eftir að hafa hugað að íbúðakaupum síðustu misseri. Það sé sýn Landsbankans að þeir viðskiptavinir sem séu í sparnaði séu líklegri til að vera í skilum og gangi betur í fjármálum sínum til framtíðar. Landsbankinn vilji ýta undir það með herferð sinni þar sem landsmenn séu hvattir til að eyða í sparnað á sama hátt og þeir eyði í eitthvað annað. Hermann segir brýnt að landsmenn byrji á því að spara áður en þeir eyði peningunum í annað, aðeins lítið brot af laununum fari í sparnaðinn og komi því ekki niður á buddunni. Hann segir að þótt verðbólga og þensla hafi einkennt efnahagslífið að undanförnu sé Landsbankinn ekki að ýta undir óþarfa eyðslu landsmanna með því að hvetja þá til að taka lán. Aðspurður hvort ekki sé fulllangt gengið að hvetja landsmenn til að taka sér lán til að fara í frí og ferðalög viðurkennir Hermann að það megi segja það. Hann myndi sjálfur ekki taka lán til að fara í frí og almennt sé fólk ráðlagt að spara og fara svo í frí. Aðstæður kunni þó að vera þannig hjá einhverjum að þeir þurfi að taka lán.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×