Innlent

Sakar Biblíufélagið um falsanir

Guð er orðinn gamall og hallærislegur í augum þjóðkirkjunnar, segir Gunnar Þorsteinsson í Krossinum. Hann gagnrýnir harðlega Hið íslenska Biblíufélag fyrir að falsa ritningarnar í nýrri þýðingu og segir ýmsa vilja koma að nýrri útgáfu þar sem Guðs orð fái að njóta sannmælis. Hið Íslenska Biblíufélag hefur undanfarin ár unnið að nýrri þýðingu Biblíunnar. Gunnar Þorsteinsson í Krossinum sakar félagið um guðlast og segir það vera í gíslingu lúterskra manna sem hafi notfært sér aðstöðuna til að hnika til og falsa texta hinnar heilögu ritningar. Hann telur að trúnaðar við texta hafi ekki verið gætt í nýrri þýðingu og að Biblíufélagið hafi farið langt út fyrir umboð sitt, sem hann segir menn ekki geta sætt sig við. Þar séu menn að ganga yfir orð Guðs og lýsa því yfir með þessum vinnubrögðum að hugsanir þeirra og viðhorf sé æðra en en orð Guðs. Aðspurður hvað hann eigi við segir Gunnar að Biblíufélagið geri þetta með því að breyta textanum í Biblíunni, ekki aðeins með því að þýða hann eftir tíðarandanum heldur hreinlega breyta honum. Texti sé felldur niður og bætt inn í hann og því heyrist þær raddir úr hans hópi að hópurinn eigi ekki samleið með þessari þýðingu. Menn vilji að farið verði af stað með nýja þýðingu þannig að Guðs orð fái að njóta sannmælis og virðing fyrir textanum sé í forgrunni og öndvegi, en þannig eigi það að vera í Biblíuþýðingu. Gunnar gagnrýnir ennfremur Morgunblaðið vegna málsins og segir blaðið hafa vegsamað falsanirnar í ritstjórnarpistli í síðustu viku. Hann telur Hið íslenska Biblíufélag hafa svikið Guð sinn og sakar þjóðkirkjuna um valdníðslu. Það sé ljóst að hún eigi ekki lengur samleið með texta Biblíunnar, Guð sé orðin gamall og hallærislegur, en þjóðkirkjan verði að finna aðrar leiðir en að falsa ritningarnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×