Innlent

Ræða um viðbrögð við dólgslátum

Forráðamenn Iceland Express ætla að ræða við yfirmenn Leifsstöðvar og Icelandair um hvernig koma megi í veg fyrir dólgslæti eins og urðu í vél félagsins á leið til Kaupmannahafnar í gær. Þrír voru handteknir við komuna þangað og verður málið væntanlega fært lögreglunni á Íslandi. Sex farþegar með vélinni hótuðu hver öðrum sem og áhöfninni líkamsmeiðingum, en 118 farþegar voru um borð. Flugstjórinn gerði lögreglu á Kastrup-flugvelli viðvart og voru sexmenningarnar, sem allir eru íslenskir, handteknir við komuna. Þremur var sleppt fljótlega og öðrum tveimur eftir yfirheyrslu en einum var haldið lengur. Að sögn Almars Arnar Hilmarssonar, framkvæmdastjóra Iceland Express, sýndu mennirnir mótþróa við handtöku. Hann segir fregnir af atburðarrásinni enn óljósar en fundað verður um málið í fyrramálið og hann bíður skýrslu flugstjórans. Hann býst við að danska lögreglan eftirláti íslenskum starfsbræðrum sínum framhald málsins. Sexmenningarnir eiga bókað far til Íslands aftur eftir nokkra daga og segir Almar að það mál verði skoðað vandlega. Þá segir Almar að óskað verði eftir fundi með forsvarsmönnum Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Icelandair um aðgerðir gegn flugdólgum og hvernig koma megi í veg fyrir að öryggi í flugi sé stefnt í hættu vegna dólgsláta. Þá ætla forsvarsmenn Iceland Express að hafa samband við farþega vélarinnar á morgun og bjóða þeim áfallahjálp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×