Innlent

Fríar hringingar í heimasíma

Fjarskiptafyrirtækið Og Vodafone hefur hrundið af stað nýrri þjónustu sem nefnist Og1, sem stuðlar að lækkun á símakostnaði heimila. Til að eiga kost á skráningu í Og1 þurfa heimili að hafa alla sína þjónustu hjá Og Vodafone; GSM, heimasíma og internet. Á meðal þeirra þjónustu sem viðskiptavinir fá eru gjaldfrjáls mínútugjöld vegna símtala úr GSM í heimilissíma og 500 gjaldfrjálsar mínútur milli allra heimasíma landsins, ekki bara hjá þeim sem eru bundin við net Og Vodafone. Hver heimilissími eða hvert GSM númer fær að auki 120 gjaldfrjálsar mínútur á mánuði í heimasíma í einu af þeim 30 löndum sem Íslendingar eiga mest samskipti við. "Við viljum vekja athygli á því að það borgar sig að hafa allt á einum stað," segir Sverrir Hreiðarson, markaðsstjóri Og Vodafone um þessa nýju þjónustu. "Við gerum okkur grein fyrir því að við verðum að vera stórtæk ef við ætlum að ná að höggva í yfirburðastöðu Símans á markaðnum. Þetta hefur farið gríðarlega vel af stað og það er greinilegt að fólk hefur beðið eftir einhverju í þessa átt." Að sögn Evu Magnúsdóttur, upplýsingafulltrúa Símans, á eftir að ákveða hvernig brugðist verður við þessari þjónustu. "Það er verið að skoða málin hjá okkur. Það er algjör óþarfi fyrir okkar viðskiptavini að hlaupa af stað. Við gerum okkar besta til að koma til móts við okkar viðskiptavini," segir hún. Og Vodafone á 365 prentmiðla sem rekur meðal annars Fréttablaðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×