Innlent

Uppselt í lúxusferð Ingólfs

Þau þrjátíu sæti sem voru í boði í mánaðarlanga hnattreisu með Ingólfi Guðbrandssyni í haust, seldust upp á kynningarfundi á fimmtudagskvöld. Þar kynnti Ingólfur ferðatilhögunina og féllu viðstaddir nánast í stafi við það eitt að heyra lýsingar af áfangastöðunum og sjá af þeim myndir. "Undirtektirnar voru einstakar," segir Ingólfur sjálfur sem er snortinn yfir viðtökunum. "Ferðin er full en vegna áskorana mun ég reyna að bæta nokkrum sætum við." Og fólk setur það ekki fyrir sig að pakkinn kosti heilar 775 þúsund krónur á mann. "Inni í þessu er allur kostnaður, það er gist á glæsihótelum og reyndar eru nokkrir sem ætla að láta færa sig á dýrara farrými," segir Ingólfur. Það má svo kalla sérstakan bónus að einn dagur bætist inn í líf ferðalanganna. "Við ferðumst í austurátt og yfir daglínuna. 22. október erum við í Tókýó og fljúgum um kvöldið til Hawaii. Fyrsti dagurinn okkar þar er líka 22. október," segir Ingólfur sem hefur komið til 144 landa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×