Innlent

Sigursælir nemar í matreiðslu

Íslenskir matreiðslunemar sigruðu í árlegri keppni Norrænna matreiðslu- og framreiðslunema sem haldin var í Drammen í Noregi að þessu sinni. Þá urðu íslensku keppendurnir í framreiðslu í öðru sæti. Bestu matreiðslunemar Norðurlanda heita Ólafur Haukur Magnússon sem er nemi á Hótel Holti og Stefán Arthur Cosser, nemi á Nordica-hóteli. Í framreiðslu kepptu tveir nemendur af Nordica, þau Guðrún H. Eyjólfsdóttir og Gunnar Rafn Heiðarsson. Þjálfari matreiðslunemanna er Björn Bragi. Hann segir aðspurður að lykillinn að góðum árangri nemanna hafi verið góður undirbúningur, en æfingar hafi verið miklar. Þá hafi hópurinn einnig verið mjög samstilltur. Matreiðslunemarnir þreyttu skriflegt próf og kepptu í tveimur leynikörfukeppnum, það er tveimur æfingum þar sem þeir fengu körfu með matvælum og þrjú korter til að ákveða matseðil upp úr þeim. Björn Bragi segir auðvelt að skýra góðan árangur íslenskra matreiðslumanna að undanförnu. Þeir séu metnaðarfullir, stefni á sigur og séu reiðubúnir að gera það sem þarf til að ná endamarkinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×