Innlent

Ungbarnadauði alvarlegasti vandinn

Daglega deyja um 30 þúsund börn í heiminum af völdum hungurs og sjúkdóma. Mary Robinsson, fyrrverandi forseti Írlands og fyrrverandi framkvæmdastjóri Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, segir þessa staðreynd skelfa sig hvað mest af öllum þeim hörmungum sem mannkynið þarf að glíma við. "Þetta samsvarar öllu því mannfalli sem varð vegna flóðanna í Asíu um áramótin, munurinn er bara sá að þetta gerist í hverri viku, allt árið um kring, 52 flóðbylgjur á ári. Hvers vegna vekur þetta ekki meiri viðbrögð hjá okkur en raun ber vitni?" spyr hún og segir þennan vanda lykilatriði í mannréttindabaráttu heimsbyggðarinnar. Mary Robinson er stödd á Íslandi í tilefni hátíðarhalda vegna 75 ára afmælis Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, en þær hafa starfað saman að mannréttindamálum á alþjóðavettvangi um langt árabil. Hún segir hægt að draga stórlega úr þessum gríðarlega barnadauða með sameiginlegu átaki, ókeypis dreifingu lyfja og matvæla. "Við sjáum hvað tókst að gera eftir flóðin í Asíu þegar öll heimsbyggðin tók höndum saman til hjálpar fólki í nauðum," segir hún. Mary Robinson veitir nú forstöðu mannréttindaamtökunum Oxfam sem berjast gegn hungri og fátækt í heiminum. Þau hafa að undanförnu tekið höndum saman við Amnesty International í baráttunni gegn vopnasölu til þróunarlanda og þá aðallega gegn sölu á handvopnum. "Byssur og rifflar eru í mínum huga hin raunveruleg gereyðingarvopn heimsbyggðarinnar, þó ógn stafi líka af öðrum stærri. Staðreyndin er sú að handvopn eru þau vopn sem deyða langflesta í heiminum og stafar konum sérstaklega hætta af þessum vopnum þar sem þeim er iðulega beitt þar sem konum er nauðgað með vopnavaldi," segir Mary Robinson. Og hún er ekki sátt við þá tvöfeldni sem forysturíki heimsins, Bandaríkin og Bretland, sýna á þessu sviði. "Forystumenn þeirra tala fjálglega um mannréttindi og hörmungar í heiminum en stunda síðan gríðarlega vopnasölu um allan heim vitandi það að þessi vopn eru oft aðaluppsretta hörmunganna," segir hún.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×