Innlent

Brotið gegn samningi

"Við teljum það kjaraskerðingu að hafa 30 stunda stopp." Þetta voru viðbrögð Guðmundar Steingrímssonar, vélstjóra á Sólbaki EA, við niðurstöðu Félagsdóms sem segir að Útgerðarfélagið Sólbakur hafi brotið gegn ákvæðum kjarasamnings milli LÍÚ og Velstjórafélags Íslands með því að tryggja þeim Guðmundi og Kristjáni Erlingssyni ekki 30 stunda hafnarfrí þegar Sólbakur lagðist að bryggju á Eskifirði í fyrra. Útgerðarfélagið Sólbakur var dæmt til að greiða Vélstjórafélaginu 250.000 krónur í málskostnað. "Það er í góðu lagi að Vélstjórafélagið kanni hvað sé rétt og rangt í þessu máli. En ég vil ekki sjá þetta 30 stunda hafnarfrí," segir Guðmundur. Samkvæmt samningi við áhöfnina á Sólbaki er hafnarfrí ein af hvejum þrem veiðiferðum í stað 30 stunda eftir hverja ferð. Helgi Laxdal, formaður Vélstjórafélagsins, segir að með dómnum sé það staðfest að með kjarasamningum á Sólbaki EA hafi landslög verið brotin. "Það liggur skýrt fyrir að Guðmundur Kristjánsson hafi ekki farið eftir kjarasamningum og íslenskum landslögum. Við viljum bara tryggja að þeir fari eftir okkar kjarasamningum." Aðspurður að því hvort það skjóti ekki skökku við ef vélstjórarnir á Sólbaki séu ósáttir við niðurstöðu Félagsdóms, sagði Helgi að málið var ekki höfðað fyrir þeirra hönd, heldur fyrir hönd Vélstjórafélagsins til að tryggja að farið sé eftir samningum. Hann er ekki sammála því að 30 tíma hafnarfrí sé kjaraskerðing miðað við núverandi stöðu. "Ég er búinn að reikna þetta út og þeir fá 40 prósentum meira ef farið er eftir okkar samningum." Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims segir niðurstöðu Félagsdóms vera óskiljanlega og þeir muni skoða sín mál í framhaldinu, þar á meðal hvað muni gerast ef ekki verður farið eftir dómnum. Fyrir dómi hélt Útgerðarfélagið Sólbakur því fram að Vélstjórafélagið væri ekki aðili að málinu, þar sem útgerðarfélagið sé ekki aðili að LÍÚ og því ekki að kjarasamningi LÍÚ og Vélstjórafélagsins. Þetta samþykkti Félagsdómur ekki. Þá hélt útgerðarfélagið því fram að ekki væri um kjaraskerðingu að ræða. Það samþykkti félagsdómur ekki heldur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×