Innlent

Þróunin önnur en í nágrannalöndum

Aðeins fimm greindust með HIV-smit á síðasta ári en síðustu fimmtán árin hafa ekki greinst jafn fáir. Sóttvarnarlæknir segir þróunina hér aðra en í nágrannalöndunum. Í árslok 2004 höfðu verið tilkynnt til sóttvarnalæknis 176 tilfelli af HIV- sýkingu frá upphafi skráningar. Þar af höfðu 56 sjúklingar greinst með alnæmi og 36 látist af völdum sjúkdómsins. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir fagnar niðurstöðunum. Hann segir að embættið hafi tekið eftir því að þetta sé langvarandi þróun, að tilfellum fækki frá ári til árs. Það sé hins vegar ekki hægt að fullyrða um að ekki séu fleiri smitaðir í þjóðfélaginu. Embættið telji að mikilvægt sé að greina þá sem séu smitaðir, sinna þeim vel og það hafi örugglega þau áhrif að draga úr smiti í samfélaginu. Aðspurður hvort fækkun smitaðra geti tengst því að færri fari í skoðun nú en áður segir Haraldur að hann velti því fyrir sér en að notaðar hafi verið aðrar aðferðir til að átta sig betur á umfangi vandans. Blóðbankinn skimi alla blóðgjafa, bæði nýja og gamla, og þá hafi verið gerðar stórar úrtakskannanir sem styðji þá fullyrðingu að HIV-smit sé ekki útbreitt í samfélaginu. Haraldur segir þróun HIV-smits vera aðra hér en í nágrannalöndum en klamidíusmituðum hefur hins vegar fjölgað. Í nágrannalöndunum hafi HIV-smituðum fjölgað aftur eftir að dregið hefði úr þeim um tíma og það bendi til þess að ekki megi sofna á verðinum. Nú sé tækifæri fyrir Íslendinga að halda þessari jákvæðu þróun áfram með fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðum. Aðspurður hvort hægt sé að setja þessa þróun í samhengi við aðra kynsjúkdóma segir Haraldur að svo sé ekki. Klamidía sé til að mynda gríðarlega útbreiddur sjúkdómur hér á landi og slíkum tilfellum hafi fjölgað lítillega á síðasta ári. Þetta sé áhyggjuefni sem sýni að kynsjúkdóma sé enn að finna í samfélaginu. Klamidía sé þó miklu meira smitandi en HIV og það skýri vafalaust ástandið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×