Innlent

Nýtt blað í burðarliðnum

Nýtt vikublað eða hugsanlega dagblað er í burðarliðnum hér á landi. Meðal þeirra sem vinna að undirbúningi þess er Karl Garðarsson, fyrrverandi fréttastjóri Stöðvar 2. Mikil leynd virðist hvíla yfir undirbúningi blaðsins. Í helgarblaði DV var stutt frétt um að vikublað, sem ætlað væri að þróast hratt í dagblað, væri í undirbúningi. Þar var Karl Garðarsson nefndur verðandi ritstjóri og Jón Helgi Guðmundsson, eigandi BYKO, sem einn bakhjarl útgáfunnar. Í sömu frétt neitaði Karl þátttöku í málinu og Jón Helgi neitaði afdráttarlaust í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í dag að vera að undirbúa slíka útgáfu. Stöð 2 hefur upplýsingar um að útgáfa af þessu tagi sé í undirbúningi og að full alvara sé að baki henni. Guðbrandur Magnússon, framleiðslustjóri Morgunblaðsins, sagði í samtali við Stöð 2 í dag að blaðið gerði tilboð í margs konar prentverkefni og staðfesti að fyrirhuguð útgáfa væri eitt þeirra verkefna sem tilboð hefði verið gert í. Ekki hafi hins vegar verið samið um neitt enn þá. Hann sagði að fyrir hönd væntanlegrar útgáfu hefði Karl Garðarsson séð um viðræður við prentsmiðju Morgunblaðsins. Karl sagðist í samtali við Stöð 2 í dag ekkert kannast við fyrirhugaða útgáfu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×