Innlent

Dregið úr umsóknum á morgun

Stefnt er að því að draga úr umsóknum um lóðirnar 30 í Lambaseli á fimmtudaginn. Rúnar Guðjónsson, sýslumaður í Reykjavík, mun þá mæta með fulltrúum sínum á skrifstofu umhverfis- og tæknisviðs Reykjavíkur og draga úr umsóknunum í viðurvist votta. Vagnbjörg Magnúsdóttir, deildarfulltrúi á umhverfis- og tæknisviði, segir að prentuð hafi verið út 200 blöð með númerum og fái hver umsækjandi sitt númer. Síðan verði fundið heppilegt ílát undir númerin. Ekki verði dregið úr hatti að þessu sinni, númerin séu svo mörg að þau rúmist ekki í hattinum. Almennir úthlutunarskilmálar gilda fyrir Lambaselið en í sérstökum úthlutunarskilmálum kemur meðal annars fram að umsækjendur verði að vera viðstaddir val lóða vilji þeir eiga möguleika á lóð. Umsækjandi má ekki vera í vanskilum með opinber gjöld og þarf hann að leggja fram greiðslumat sem staðfestir að hann ráði við 25 milljóna króna húsbyggingu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×