Innlent

Netsjónvarp að byrja

Fjarskiptafyrirtækið Hive byrjar með útsendingar á sjónvarpsefni í gegnum Netið í vor en tæknilegar prófanir eru þegar hafnar. Verið er að afla tilskilinna leyfa frá rétthöfum efnis og liggja þau fyrir á næstu vikum. Framboð á efni mun taka stórstígum framförum þegar líður á árið. "Um nýja tækni er að ræða. En þó að tæknin sé tilbúin er höfundarréttarheimurinn ekki eins tilbúinn þegar kemur að því að fá leyfi til að dreifa sjónvarpsefni yfir internetið. Það má segja að þessi bylgja af ólöglegu efni sem flæðir yfir netið sé að vinna gegn okkur," segir Arnþór Halldórsson, framkvæmdastjóri Hive. Stóru Hollywood-stúdíóin eiga stærstan hluta af því efni sem fólk vill horfa á í sjónvarpi og segir Arnþór að þau sé mjög varkár og hafi almennt séð ekki opnað fyrir þann möguleika að dreifa sjónvarpsefni yfir internetið. "En við sjáum fram á ákveðnar breytingar, það virðist vera að rofa til í þessum efnum þannig að það gefur okkur ástæðu til að vera bjartsýn á að okkur takist að loka þessum höfundarréttarsamningum. Þá er okkur ekkert að vanbúnaði," segir hann. Bæði verður hægt að horfa á útsendingarnar í sjónvarpi og í tölvu. Allar opnar sjónvarpsrásir verða opnar í gegnum tölvuna án þess að þurfi nokkurn aukabúnað. Í þeim tilfellum þar sem áhorfandinn vill fá myndina í sjónvarpið sitt þarf hann að kaupa afruglara. Í framtíðinni hyggst Hive bjóða upp á svokallað "Pay per View" með öllu því efni sem er dýrt í aðföngum og mun áhorfandinn þá greiða fyrir það efni sem hann horfir á. Þegar fram líða stundir mun Hive einnig bjóða upp á "Video on Demand" eða gagnvirkt sjónvarp. Viðskiptavinurinn velur sér þá mynd og horfir á þegar honum hentar. Sigurður G. Guðjónsson er stjórnarformaður Hive.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×