Innlent

Heimsækja stofnanir og fyrirtæki

Þriggja daga opinber heimsókn forsetahjónanna til Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins hófst í morgun. Þau munu í dag heimsækja fjölmargar stofnanir og fyrirtæki. Laust fyrir klukkan níu í morgun lenti forseti Íslands ásamt fylgdarliði á Akureyrarflugvelli og þar með hófst fyrsta heimsókn hans til Akureyrar. Eftir stutta móttökuathöfn á flugvellinum var haldið í Verkmenntaskólann á Akureyri þar sem forsetinn ávarpaði nemendur og flutt var stutt atriði úr sameiginlegum söngleik framhaldsskólanna í bænum og forseti skoðaði starfsemi skólans. Að því loknu var haldið á leikskólann Iðavelli þar sem börnin tóku á móti forsetanum og fylgdarliðinu með söng og einnig höfðu börnin teiknað myndir af forsetahjónunum og smíðað eftirlíkingu af Bessastöðum úr pappakössum sem vöktu mikla athygli gestanna. Sýndi Dorrit Moussaieff forsetafrú starfi barnanna sérstaka athygli og tók þátt í leik þeirra stutta stund. Eftir heimsóknina í leikskólann var haldið í Oddeyrarskóla og starfsemi hans skoðuð og laust fyrir hádegi var svo haldið á Öldrunarheimili Akureyrar og heilsað upp á heimilisfólk, en þar var snæddur hádegisverður. Forsetinn og fylgdarlið heimsækir fjölmörg fyrirtæki og stofnanir í dag og í kvöld býður Akureyrarbær bæjarbúum til samkomu í Íþróttahöllinni þar sem forsetinn mun ávarpa bæjarbúa og ýmislegt annað verður til skemmtunar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×