Innlent

Skiptar skoðanir um sameiningu

Þann 23. apríl munu íbúar fimm sveitarfélaga í Borgarfirði norðan Skarðsheiðar greiða atkvæði sitt með eða á móti sameiningu sveitarfélaganna Borgarbyggðar, Skorradalshrepps, Hvítársíðuhrepps, Kolbeinsstaðahrepps og Borgarfjarðarsveitar. Helga Halldórsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Borgarbyggð, segir sameiningarnefndina einhuga. "Í skoðanakönnun á vegum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi kom fram eindreginn vilji íbúa fyrir sameiningu. Við höfum sent út málefnaskrá og fundaherferð hefst í vikunni," segir Helga og bætir við að þau málefni sem brunnu heitast á mönnum við sameininguna 1994 séu nú í góðum farvegi. "Mér vitandi er enginn ásteitingarsteinn í þessari umræðu. Fólk sér að við sameiningu verður til fjárhagslega sterkt sveitarfélag á landsvísu; ákveðið mótvægi við Árborg og Reykjanesbæ. Svæðið hefur verið eitt þjónustu- og atvinnusvæði lengi og við orðin vön að vinna saman," segir Helga. "Sameining styrkir svæðið sem eina heild og veitir ákveðna möguleika á uppbyggingu til framtíðar." Fram að þessu hefur Skorradalshreppur fellt sameiningartillögur og Davíð Pétursson oddviti segir skoðanir manna enn skiptar. "Menn vilja vera sjálfstæðir eins lengi og hægt er. Við höfum rekið sveitarfélagið þannig að álögur eru minni en annarsstaðar og ekki þurft fjárhagslega aðstoð. Það er talað um að æskilegt sé að stækka þótt maður sjái ekki rekstrarlegan ávinning af því. Fólk er hrætt við að í stóru sveitarfélagi myndist jaðarbyggðir sem verði útundan. Fámenn sveitarfélög hafa litlar líkur á miklum áhrifum og þéttbýli tekur alltaf til sín töluvert af ráðstöfunarfé. Viðkvæmust eru þó skólamálin, því með hagræðingu sameiginlegs sveitarfélags er hætta á að fámennari skólar leggist niður," segir Davíð sem hvetur fólk að mæta á kjörstað. "Það væri dapurlegt ef sameinað yrði með innan við fimmtíu prósent atkvæðamagni og slæmt ef fólk skilar sér ekki á kjörstað. Kjörsókn verður að vera áttatíu prósent svo hún sé marktæk."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×