Innlent

Ráku Gyðinga úr landi í stríðinu

Samkvæmt danska dagblaðinu Politiken komu upplýsingar um þetta fyrst fram árið 1998, þegar íslenski sagnfræðingurinn Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson birti niðurstöður rannsókna sinna á örlögum danskra Gyðinga í Þýskalandi á stríðsárunum. Þáverandi ríkisstjórn í Danmörku ákvað í framhaldinu að skipa opinbera nefnd til að gera ítarlega könnun á örlögum þessa fólks. Nefndin hefur nú skilað af sér skýrslu þar sem niðurstöður Vilhjálms Arnar eru staðfestar. Fram kemur að dönsk stjórnvöld höfðu frumkvæði að því að vísa að minnsta kosti 19 Gyðingum úr landi á árunum 1940-1942. Hvergi kemur fram að þetta hafi verið gert að beiðni Þjóðverja, sem hersátu Danmörku á þessum tíma. Í nokkrum tilvikum var um að ræða Gyðinga sem flúið höfðu til Danmerkur undan ofríki nasista. Í skýrslunni segir enn fremur að lögfræðingar hafi ítrekað varað danska embættismenn við því að vísa þessu fólki úr landi, þar sem lífi þess væri bráð hætta búin í Þýskalandi. Talsmenn nefndarinnar segja þó ekki hægt að sýna fram á að dönsk stjórnvöld hafi haft vitneskju um fyrirætlanir nasista um útrýmingu Gyðingum á þessum tíma. Engu að síður er fullyrt að dönskum stjórnvöldum hafi verið ljóst að Gyðingar voru ofsóttir í Þýskalandi á þessum árum. Síðar í þessum mánuði kemur út bók eftir Vilhjálm Örn um örlög þessa flóttafólks þar sem meðal annars segir frá konu að nafni Brandla Wassermann sem var vísað frá Danmörku ásamt þremur börnum sínum og endaði ævidagana í útrýmingarbúðunum í Auschwitz.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×