Innlent

Fimm mál valda deilum á Ísafirði

Málin sem Félag framhaldsskóla greinir menntamálaráðherra frá í bréfi um samskipti kennara Menntaskólans á Ísafirði og Ólínu Þorvarðardóttur skólameistara snúa að breyttum starfsskilyrðum kennara, áminningum og uppsögnum. Málin eru fimm. Fréttablaðið hefur vitneskju um fjögur þeirra. Eitt snýr að starfsmanni sem voru gefnir úrslitakostir um að fara í áfengismeðferð eða verða sagt upp störfum. Hann hafði þá hlotið áminningu. Annað snýr að starfsmanni sem ráðinn var yfir einn vetur en starfaði í tvær vikur við skólann og hvarf á braut. Telja kennarar að hann hafi lent í slysi og verið í veikindaleyfi fram að áramótum. Honum var sagt upp störfum. Þriðja málið varðar starfsmann sem vann hálft starf sem kennari og hálft sem námsráðgjafi. Starfshlutfall hans sem námsráðgjafi var hækkað í 75 prósent en lækkað aftur er annar námsráðgjafi var ráðinn við hlið hans. Starfsmaðurinn sætti sig ekki við það. Fjórða málið varð að dómsmáli sem tekið var fyrir í Héraðsdómi Vestfjarða í gær. Kennari gaf þrjátíu nemendum sínum níu og tíu í einkunn í ensku utan sex nemenda sem fengu átta. Rétt tæplega tuttugu nemendur þreyttu próf en aðrir höfðu áunnið sér einkunnina yfir veturinn. Skólayfirvöld fóru aftur yfir prófin og lækkuðu fimmtán einkunnir. Því vildi kennarinn ekki una. Félag skólameistara segir Ólínu ekki hafa farið út fyrir verksvið sitt í fjórum málanna en þeir geti ekki tjáð sig um mál sem sé fyrir dómi. Vinnustaðasálfræðingur er við störf í skólanum og sækja kennarar sem vilja til hans. Koma sálfræðingsins þykir bera vott um vilja Ólínu til sátta. Kennarar við skólann segja ákvarðanir Ólínu ekki helsta ágreiningsefnið heldur hvernig hún stóð að þeim. Einn vísaði í síðustu orð yfirlýsingar Félags framhaldsskólakennara um málið. Þar stendur: "[E]nginn efast um stjórnunarvald skólameistara. En góður stjórnandi setur reglur, leiðbeinir starfsfólki og verndar það, en síðast en ekki síst verður hann að vera meistari í mannlegum samskiptum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×