Innlent

Draga úr styrkjum til landbúnaðar

Íslensk stjórnvöld þurfa að draga verulega úr styrkjum til landbúnaðarins þegar samningur Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar sem nú er í smíðum tekur gildi, að öllum líkindum í árslok 2007. Eftir er að ákveða hvar í kerfinu verður mest skorið niður. Aðilar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar fara reglulega í svokallaðar samningalotur þar sem framtíðarreglur um alþjóðaviðskipti eru mótaðar. Enn er eftir að ganga frá smáatriðum en það er ljóst að næsti samningur mun fela í sér alvöru tollalækkanir og niðurskurð á styrkjum og þar með aukinn aðgang þróunarríkja að vestrænum mörkuðum fyrir sínar landbúnaðarafurðir. Sem stendur styrkir íslenska ríkið landbúnaðinn um tíu og hálfan milljarð króna á ári en að öllum líkindum verða þeir styrkir að lækka í um sex milljarða fyrir 2012. En er íslenska landbúnaðarkerfið undir það búið? Guðmundur B. Helgason, ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, segir að landbúnaðarstefnan, eins og hún t.a.m. birtist í búvörusamningum, sé miðuð við þann veruleika sem búist er við að muni blasa við á komandi árum. Guðmundur segir trúverðugleika alþjóðaviðskiptakerfisins í raun í húfi í þessari samningslotu og þar skipti landbúnaðurinn mestu. Ísland muni ekki fá neina sérmeðferð, þótt markmiðið sé að tryggja sveigjanleika og aðlögunartíma fyrir íslenskan landbúnað. Aðpsurður hvar megi helst búast við niðurskurði segir Guðmundur að varðandi innanlandsstuðninginn sérstaklega sé um að ræða framleiðslutengdan og markaðstruflandi stuðning eins og framleiðslutengdar beingreiðslur, t.d. til mjólkurframleiðenda, eða markaðsverðsstuðning eins og opinber verðlagning á mjólkurafurðum. Guðmundur minnir þó á að enn eigi eftir að klára samninginn og sjálfsagt muni allar greinar landbúnaðarins finna fyrir þessu að einhverju leyti þegar fram líða stundir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×