Innlent

Njarðargata lokuð í þrjár vikur

Töluverðar framkvæmdir standa nú yfir á mótum Hringbrautar og Njarðargötu. Njarðargata hefur verið lokuð fyrir umferð sunnan Hringbrautar og verður það áfram næstu þrjár vikur að sögn Höskuldar Tryggvasonar hjá Gatnamálastofu Reykjavíkur. Verið er að reisa göngubrú yfir Hringbraut auk þess sem verið er að aðlaga Njarðargötu að mótum gömlu og nýju Hringbrautar. Þá er unnið að jarðvegsskiptum fyrir stöpla göngubrúar yfir Njarðargötuna. Höskuldur segir framkvæmdir við færslu Hringbrautar standa ágætlega. Tæplega ár sé liðið frá því að þær hófust og búast megi við að þeim ljúki í október. Inni í verkefninu er færsla götunnar og aðlögun þeirra gatna sem liggja að henni. Búast má við fleiri lokunum við Hringbraut í sumar. Til dæmis verði Snorragata lokuð á móts við Landspítala vegna gerð undirganga. Eftir 1. maí verður Miklabraut þrengd niður í tvær akreinar við Eskihlíð þegar ný Hringbraut verður tengd við austurenda götunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×