Innlent

60 milljarðar í yfirdrátt

Þjóðin skuldar bönkunum tæpa sextíu milljarða króna í formi yfirdráttarlána. Það þýðir að hver einn og einasti Íslendingur, á aldrinum 18 til 80 ára, sé með um 280 þúsund krónur að láni á hæstu mögulegu vöxtum.  Þegar fjármálastofnanir tóku að bjóða hagstæð íbúðalán á síðasta ári brugðu fjölmargir á það ráð að endurfjármagna skammtímaskuldir eins og yfirdráttarlánin. Í kjölfar lántakanna minnkaði jú yfirdrátturinn en nú stefnir allt í sama horf því yfirdráttarlán hjá einstaklingum hækkuðu um 4,1 milljarð króna fyrstu tvo mánuði ársins. Þau námu í lok febrúar rúmum 58 milljörðum króna. Ingólfur H. Ingólfsson, félagsfræðingur og fjármálaráðgjafi, segir að það vanti einfaldlega sparnað hjá fólki. Þegar bílinn bilar, þvottavélin hrynur eða eitthvað slíkt kemur upp á nær fólk í pening fyrir viðgerðum í formi yfirdráttar, ef ekki er til sparnaður. Meðal-Íslendingur er með 280 þúsund krónur í yfirdrátt og það er dýrt. Ef tekið er dæmi af hjónum, meðalhjónum, þá greiða þau um fimmtíu þúsund krónur í vexti á ári bara af yfirdrættinum - meira en hálfa milljón á tíu árum. Að frumkvæði Ögmundar Jónassonar þingmanns var yfirdráttur á tékkheftum landsmanna ræddur á Alþingi í dag en hann sagði tölurnar hljóta að vekja ríkisstjórnina sem aðra til umhugsunar. Fjármálaráðgjafinn Ingólfur á ekki heldur neina töfralausn - aðra en þá að Íslendingar læri að spara. Það er, að taka fyrir ákveðinn hluta af tekjunum sínum í sparnað, nánast blindandi strax og maður fær peningana í hendur, og þegar einn mánuðurinn verður dýrari en venjan er þá sækir maður peninginn þangað og lætur bankann alveg eiga sig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×