Erlent

Hjálparstarf komið í fullan gang

Hjálparstarf er komið í fullan gang á Nias-eyju á Indónesíu sem varð hvað verst úti í jarðskjálftanum sem þar reið yfir í fyrradag. Samt sem áður er mikill matarskortur á eynni og enn hefur ekki reynst unnt að bjarga fólki sem er fast í húsarústum.  Fréttamenn í stærstu borg Nias, Gunung Sitoli, lýsa miklum hörmungum. Borgin er í rúst, vatns- og rafmagnslaus, og nálykt liggur í loftinu. Fólk, jafnvel illa slasað, grátbiður aðkomumenn um mat og grefur í húsarústum með berum höndum í leit að ástvinum þar sem stórvirkar vinnuvélar liggja ekki á lausu. Frönsk björgunarsveit bjargaði karlmanni heilum á húfi úr rústunum í dag, heilum fjörutíu klukkustundum eftir að skjálftinn reið yfir. Það eru þó fleiri sem reynast látnir í húsarústunum og tala látinna hækkar jafnt og þétt. Nú er talið að um eitt þúsund manns hafi látist. Þrátt fyrir að hjálparstarf hafi verið fljótt í gang, aðallega vegna þess að hjálparstofnanir voru enn á svæðinu eftir stóra skjálftann um síðustu jól, þá hafa rigningar og skemmdir á samgöngumannvirkjum tafið flutning hjálpargagna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×