Innlent

Jólainnkaupin dýrt spaug

Afborganir fólks vegna jólainnkaupanna eru meðal ástæðna þess að yfirdráttarlán Íslendinga hafa aukist mikið fyrstu tvo mánuði ársins. Yfirdráttarlán hjá einstaklingum á Íslandi hækkuðu um 4,1 milljarð króna fyrstu tvo mánuði ársins og námu í lok febrúar rúmum fimmtíu og átta milljörðum króna. Þetta jafngildir því að hver Íslendingur á aldrinum 18 til 80 ára sé með um 280 þúsund krónur í yfirdrátt í íslenskum bönkum. Með tilkomu bankanna á íbúðalánamarkaðinn spáðu margir því að yfirdráttarlán hjá einstaklingum myndu lækka þar sem margir myndu sjá hag sinn í því að endurfjármagna yfirdráttarlán sín með hagstæðum íbúðalánum. Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningadeildar Landsbankans, segir ástæður aukinna yfirdráttarlána landans margvíslegar. Hún telur þetta vera árstíðabundið og segir að þótt aukningin sé mikil frá því um áramótin, svo ekki sé talað um frá því í ágúst, þá sé aukningin ekki eins mikil á milli ára. Frá áramótum sé þetta t.d. fjármögnun á skammtímalánum sem tekin voru í jólavertíðinni en hún var dýrari fyrir almenning en áður hefur verið. Annar hluti skýringarinnar eru aukin umsvif á fasteignamarkaði. Að sögn Eddu nota einhverjir nefnilega yfirdráttinn sem brúarfjármögnun við kaup á nýrri eign, ef ekki sé búið að losa gömlu eignina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×