Erlent

Bandaríkjamanns og Asíubúa leitað

Danska lögreglan lýsir eftir tveimur mönnum vegna morðsins á Torben Vagn Knudsen, rúmlega fertugum leigubílstjóra, sem fannst sundurhlutaður í Kaupmannahöfn um páskana. Einnig er lýst eftir einkabíl Knudsens, sem talið er að hann hafi búið í, síðasta hálfa mánuðinn sem hann lifði. Lýst er eftir Bandaríkjamanni og manni sem er asískur í útliti og talar dönsku. Vitni sáu mennina tvo yfirgefa krána Andys Bar í miðborg Kaupmannahafnar ásamt leigubílstjóranum að morgni föstudagsins langa. Síðast sást til þremenninganna á leið niður að Nýhöfn klukkan sjö að morgni föstudagsins. Knudsen var stunginn nokkrum sinnum með hnífi og lík hans sagað niður í nokkra hluta og skilið eftir á tveimur stöðum. Fyrstu líkamshlutarnir fundust á laugardagsmorgni klukkan fimm sem gefur tuttugu og tveggja stunda tímaramma frá því að síðast sást til mannanna þriggja. Krufning á líkinu leiddi í ljós áverka sem gefa til kynna að átök hafi átt sér stað áður en maðurinn lést. Lögreglan telur að hann hafi verið myrtur skammt frá þeim tveimur stöðum þar sem líkið fannst og vonar ad leitarhundar, sem fara um svæðið í dag, finni frekari vísbendingar. Danska lögreglan hefur einnig lýst eftir einkabíl hins látna en leigubíll hans fannst í gær á þeim slóðum þar sem líkið fannst. Dökkgrár Opel-bíll mannsins gæti gefið margvíslegar vísbendingar, sérstaklega þar sem Knudsen bjó í bílnum undanfarnar tvær vikur eftir að hann flutti út frá sambýliskonu sinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×