Innlent

Grásleppuvertíðin hafin

Grásleppuvertíðin fyrir Norðausturlandi hefst í dag og nú í morgun streymdu bátarnir út í blíðskaparveðri. Vertíðin í ár verður þremur vikum styttri en venjulega og er það gert til að draga úr framboði á grásleppuhrognum á heimsmarkaði sem ofmettaðist í fyrra vegna óvenju góðra aflabragða hér við land og við Nýfundnaland og Grænland, auk þess sem veiðin við Noreg var nokkurn veginn í meðallagi. Að söng Arthurs Bogasonar, formanns Landssambands smábátaeigenda, réru u.þ.b. 350 smábátar til grásleppuveiða í fyrra en verða líklega nokkru færri núna, bæði vegna þess að vertíðin verður styttri og svo er verð fyrir hrognin um 23 prósentum lægra fyrir tunnuna í ár en í fyrra. Það helgast af því að enn eru til talsverðar birgðir frá því í fyrra. Það sem er athyglisvert við þessar aðgerðir hér er að þær eru í samráði við grásleppusjómenn á Nýfundnalandi, Grænlandi og í Noregi sem allir ætla að draga úr veiðum til að stýra framboði. Stjórnvöld komu ekki nærri þessu samkmomulagi sem nær þvert yfir Atlantshafið. Það er liðin tíð að gamlir grásleppukarlar stundi þessar veiðar á eins til fjögurra tonna trébátum með svona tíu hestafla vélum sem dugguðu bátunum áfram á fjögurra til sex mílna hraða. Nú eru þetta harðir atvinnusjómenn á fimm til tíu tonna fullkomnum hraðfiskibátum úr trefjaplasti með allt að 500 hestafla vélum og ganga upp í 30 mílna hraða - með stæl.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×