Sport

Hannes byrjar gegn Ítölum

Þrjár breytingar verða á íslenska liðinu frá því í leiknum gegn Króötum á laugardaginn en íslenska liðið mætir því ítalska í Padova í kvöld. Hannes Sigurðsson er einni frammi í sínum fyrsta landsleik en hann hefur verið markahæsti leikmaður 21 árs landsliðsins undanfarið ár. „Þetta byrjaði rosalega vel undir stjórn Ásgeirs og Loga. Við unnum þrjá fyrstu leikina, fengum reyndar skell í vináttuleik gegn Englandi en unnum svo Ítalíu í frábærum leik og allt virtist á flugi fyrir HM. En svo komu þessir skellir á móti Búlgaríu og Ungverjalandi í riðlakeppninni, eftir það hrundi sjálfstraustið og það hefur reynst afskaplega erfitt að vinna sig út úr því," sagði Hermann Hreiðarsson landsliðsfyrirliði við Fréttablaðið eftir æfingu í Padova á Ítalíu í gærkvöld.   Þegar er búið að selja 20 þúsund miða á vináttulandsleik Ítalíu og Íslands og búist við um 25 þúsund manns en leikvangurinn, sem er frekar nýlegur, tekur um 30 þúsund manns. Padova leikur í Serie C en þetta er fyrsti landsleikurinn í borginni í 80 ár. Þrátt fyrir að íslenska liðið hafi fengið á sig fjögur mörk gegn Króatíu á laugardaginn ætla landsliðsþjálfararnir að notast við sama leikkerfi. „Leikskipulagið okkar gekk upp í meginatriðum gegn Króatíu. Við fórum í gegnum hvernig við eigum að verjast betur í horn- og aukaspyrnum á æfingunni hér áðan og nú vitum við betur hvað við þurfum að gera, við þurfum einfaldlega að vera grimmari maður á móti manni," sagði Brynjar Björn Gunnarsson við Fréttablaðið.   Þrír byrjunarliðsmenn duttu út vegna meiðsla og kemur meðal annars einn nýliði í þeirra stað. Liðið verður þannig skipað (4-2-3-1): Árni Gautur Arason í markinu, Kristján Örn Sigurðsson, Ólafur Örn Bjarnason, Hermann Hreiðarsson og Indriði Sigurðsson. Aftastir á miðjunni verða Pétur Marteinsson og Brynjar Björn Gunnarsson. Gylfi Einarsson verður fremstur á miðjunni, Bjarni Guðjónsson kemur inn fyrir Jóhannes Karl bróður sinn og Grétar Rafn Steinsson byrjar inni á fyrir Arnar Þór Viðarsson. Þá byrjar nýliðinn Hannes Þ. Sigurðsson í fremstu víglínu fyrir Heiðar Helguson en Hannes hefur spilað feikilega vel fyrir U21 árs liðið og skorað meðal annars tvær þrennur. Allir leikmenn íslenska liðsins fá að spreyta sig í leiknum og því ljóst að fjórir nýliðar koma við sögu. „Ég lít á það þannig að nú hefjist undirbúningur fyrir næstu keppni og við notum þessa leiki sem eftir eru á þessu ári fyrir hana. Við þurfum líka að ná okkur í stig til þess að ná sem bestu sæti í riðlakeppni HM svo við föllum ekki um styrkleikaflokk. Það verður ekkert vandamál að gíra upp í þennan leik gegn Ítalíu því það er alltaf heiður að spila með landsliðinu," sagði Hermann Hreiðarsson.   Ítalía spilar 4-3-3 gegn Íslandi og aðeins Marco Materazzi, varnarmaður Inter, er eftir af byrjunarliðinu frá leiknum gegn Skotum um helgina sem Ítalía vann 2-0. Ítalska dagblaðið La Gazzetta dello Sport eyðir opnu undir landsleikinn í gær þar sem því er slegið upp að fimm leikmenn Sikileyjarliðsins Palermo verði líklega í byrjunarliði Ítalíu. Þá muni þetta B-lið Ítalíu selja sig dýrt því þarna eru leikmenn sem vilja sanna sig fyrir landsliðsþjálfaranum Marcello Lippi. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×