Erlent

Hitti banamann sinn á krá

Líkið sem fannst sundurbútað í Kaupmannahöfn um páskana, var af rúmlega fertugum dönskum leigubílstjóra. Leigubíll hans fannst yfirgefinn í dag, skammt frá þeim stað þar sem líkið fannst. Lögreglan telur hann hafa hitt banamann sinn á krá í nágrenninu. Eftir að myndir af líkinu voru birtar í dönskum fjölmiðlum í gær bárust lögreglu yfir hundrað ábendingar frá almenningi um hver maðurinn gæti verið. Í morgun voru rúmlega fimmtíu nöfn á listanum en eftir að lögregla fékk upphringingu frá nánum ættingja mannsins var nafn hans sett efst á listann. Tennur líksins voru bornar saman við tannlæknaskýrslur og staðfestu grun lögreglu. Málið hefur skiljanlega fengið mikla fjölmiðlaumfjöllun og gerði Ekstrablaðið málinu ítarleg skil í máli og ekki síst myndum í dag þar sem meðal annars var birtur uppdráttur af því hvernig líkið var bútað í sundur. Lögregla hefur ekki staðfest að vélsög hafi verið notuð en vitað er að maðurinn lést af stungusárum. Ekstrablaðið sagði manninn hugsanlega leigubílstjóra. Nú undir kvöld staðfesti lögregla það, í Íslandi í dag þeirra Dana, Go' aften Danmark, og sagði leigubíl mannsins hafa fundist í dag skammt frá þar sem líkið fannst. Eitt af því furðulega við málið er að sjálfur morðstaðurinn liggur ekki fyrir þar sem líkið fannst á tveimur stöðum í Kaupmannahöfn. Hundi tókst það sem lögreglu tókst ekki, skrifar Ekstrablaðið, og vísar til þess að Kaupmannahafnarbúi sem var að viðra hundinn sinn fann búkinn af manninum í gærmorgun eftir að fætur og hönd höfðu fundist nokkur hundruð metra frá tveimur sólarhringum áður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×