Erlent

Minna hafdýpi minnkaði flóðbylgju

Fyrstu fréttum svipaði mjög til þeirra sem bárust á annan í jólum, þegar flóðbylgja af völdum jarðskjálfta í Indlandshafi breiddi dauða og eyðileggingu um strandríkin í kring. Jarðskjálftinn sem varð á svipuðum slóðum á mánudag reyndist þó ekki valda neinni viðlíka flóðbylgju, þar sem hann var allnokkru veikari og á minna dýpi. Jarðskjálfti, sem er 8,7 stig á Richter-kvarða er samt það sterkur að hann getur valdið mikilli eyðileggingu í að minnsta kosti 200 km radíus frá skjálftamiðjunni. Verst urðu íbúar Nias-eyju úti, sem er rétt sunnan við upptök skjálftans, undan strönd Súmötru. Þar hrundu um sjö af hverjum tíu húsum og þúsundir manna grófust undir rústum. Skýringa á því hvers vegna ekki varð vart við mikla flóðbylgju í þetta sinn er að sögn jarðvísindamanna að leita í tvennu; bæði var skjálftinn nú orkuminni en sá fyrri og hann varð undir minna hafdýpi. "Aðalmunurinn er að það er miklu minna hafdýpi fyrir ofan þennan skjálfta en var fyrir ofan þann sem varð á annan í jólum. Það skiptir meginmáli hvað varðar myndun flóðbylgju," segir Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur. "Þessi skjálfti varð á milli tveggja eyja, þar sem er frekar grunnt, í samanburði við þann fyrri. Til þess að mikil flóðbylgja náist upp þarf hafdýpið fyrir ofan brotalínu skjálftans að vera mikið. Þar sem er djúpt hreyfist miklu meiri massi sjávar en þar sem grunnt er." Ragnar segir að jarðhræringarnar í nýja skjálftanum hafi verið í eðli sínu svipaðir og í stóra hamfaraskjálftanum 26. desember. Þær urðu á samgengi, þar sem einn jarðskorpufleki gengur undir annan. Munurinn felst fyrst og fremst í styrkleikastigi og staðsetningu, það er að nýi skjálftinn varð undir minna hafdýpi. Að sögn Ragnars hefur vafalaust gengið sjór á land næst skjálftamiðjunni, þótt ekkert hafi orðið vart við flóðbylgju fjær. Skjálftar af þessari gerð og styrkleika geti vel valdið mikilli flóðbylgju, en til þess þyrfti hann að verða á meira hafdýpi en raunin var með skjálftann á mánudag. Brotalínan í nýja skjálftanum var um 200-500 km að lengd, en í jólaskjálftanum var hún sennilega á bilinu 1.000-1.300 km löng. Lóðrétta misgengið var aðeins nokkrir metrar nú, en var á annan tug metra í fyrri skjálftanum. Láta mun nærri að tíu sinnum meiri orka hafi leystst úr læðingi í skjálftanum annan í jólum en nú á mánudaginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×