Innlent

Með verkfall að vopni

Starfsgreinasambandið ætlar ekki að standa eitt að stöðugeikanum, segir Kristján Gunnarsson formaður sambandsins. Kraftaverk þurfi að gerast svo forsendur kjarasamnings félaga Starfsgreinasambandsins haldist. "Ég sé það ekki gerast," segir Kristján: "Verkafólk verður ekki endalaust sett eitt fyrir vagn stöðugleikans." Verði verðbólga yfir 2,5 prósent í haust og aðrir nýir kjarasamningar úr takti við samning Starfsgreinasambandsins tekur fjögurra manna nefnd á vegum Samtaka atvinnulífisins og Alþýðusambands Íslands hann til endurskoðunar, bætir hann eða segir honum upp. Verkalýðsfélag Akraness segir hann nú þegar kolfallinn og Kristján segir flest benda til þess að grípa þurfi til enduskoðunarákvæðisins. Verði vinnuveitendur ekki tilbúnir að bæta þann launamun sem myndast hafi og allar leiðir þrjóti sé verkfall eitt vopna sambandsins. Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífisins, segir hvorki skynsamlegt né líklegt að laun verði hækkuð frekar. Nefndin þurfi að skoða í haust hvort forsendurnar hafi staðist tæknilega eða ekki. Þrátt fyrir að dæmi séu um að félög hafi samið betur fyrir sína umbjóðendur en Starfsgreinasambandið heyri það til undantekninga. Verðbólgan sé einnig innan markmiða Seðlabankans sé húsnæðisliðurinn ekki reiknaður með. Ari bendir á að þar sem ekki hafi verið samið við allar starfstéttir sé ekki tímabært að skoða hvort forsendurnar séu brostnar. "Það er augljóst að laun hafa hækkað mikið meira á Íslandi en í löndunum í kring á samningstímanum. Þó eru laun hærra hlutfall af verðmætasköpun hér heldur en annars staðar. Það er líka ljóst að kaupmáttur hefur aldrei verið hærri á Íslandi. Hver maður getur því velt fyrir sér hvort líklegt sé að viðbrögð verði enn frekari launahækkanir," segir Ari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×